139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

uppgjör fyrirtækja í erlendri mynt -- Kvikmyndaskóli Íslands -- HS Orka ofl.

[11:03]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Frú forseti. Sá sem hér stendur hefur engan áhuga á að munnhöggvast við forseta Íslands en það er sjálfsagt mál að svara honum fullum hálsi ef hann beinir orðum sínum til þingsins. Vitna ég þar til tjáningarfrelsis sem er við lýði á Íslandi.

Mig langar miklu fremur að tala um möguleika ferðaþjónustunnar sem eru gríðarlegir hér á landi og velta fyrir mér þeim hugleiðingum sem stjórnmálaflokkar hér á landi hafa í þeim efnum. Sá sem hér stendur man eftir því þegar hann byrjaði í blaðamennsku fyrir margt löngu að hann beið lengi eftir því að 100.000. erlendi ferðamaður ársins stigi fæti á íslenska storð og það gerðist 1985. Um aldamótin voru þeir orðnir 300 þús. árlega, í ár eru þeir 600 þús. og ef fram heldur sem horfir verða þeir orðnir vel yfir eina og hálfa milljón þegar þessi áratugur er á enda.

Hvernig ætlum við að taka á móti þessu fólki? Hvernig ætlum við að byggja upp ferðaþjónustuna? Hvernig ætlum við að koma í veg fyrir að mörg okkar merkustu náttúrusvæði verði oftroðningi að bráð? Það gerum við með því að dreifa ferðafólki æ betur yfir landið og æ betur yfir árið. Hvernig byggjum við upp ferðaþjónustuna án þess að fá aukið fé inn í landið? Það gerum við með því að taka með opnum og jákvæðum huga þeim mönnum sem vilja taka þátt í þessari uppbyggingu með okkur. Þess vegna kalla ég eftir skýrum svörum frá forustu allra flokka innan dyra á Alþingi um hvernig þeir vilja taka á móti þessari erlendu fjárfestingu. Er hún hættuleg sakir þess eins að hún kemur frá Kína? Er hún hættuleg sakir þess eins að hún kemur utan Evrópska efnahagssvæðisins?

Ég kalla sérstaklega eftir skýrum og afdráttarlausum skoðunum forustu Sjálfstæðisflokksins í þessum efnum vegna þess að mér hefur fundist hún óskýr. Eru sjálfstæðismenn núna árið 2011 orðnir hræddir við erlenda fjárfestingu eða vilja þeir eins og (Forseti hringir.) margir skoða hana með opnum og jákvæðum huga?