139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[11:27]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða og yfirgripsmikla ræðu þar sem hann kom inn á ýmis mál sem eru til umfjöllunar í því frumvarpi sem við ræðum hér. Eitt af því sem hv. þingmaður velti fyrir sér er sá asi sem er á þessu máli og sú mikla áhersla sem hæstv. ríkisstjórn og ekki síst hæstv. forsætisráðherra leggur á það að málið verði afgreitt á þessum svokallaða septemberstubbi. Það sem er athyglisvert í því sambandi er að þar birtist á vissan hátt forgangsröðun hæstv. ríkisstjórnar. Það liggur sem sagt fyrir að aðaláhersluatriði ríkisstjórnarinnar við núverandi aðstæður í þjóðfélaginu er að auka vald hæstv. forsætisráðherra, auka valdið til að deila og drottna, auka valdið til að hóta.

Ég hef ekki fengið svar við því hvað veldur því og hvaða nauðir rekur til þess að leggja svona mikla áherslu á að klára málið einmitt núna. Hv. þingmaður benti á að það er skammt í októberþing, það er u.þ.b. hálfur mánuður þangað til þingið kemur saman að nýju. Auðvitað ætti að vera hægur vandinn að ljúka málinu með sómasamlegri hætti á þinginu sem hefst hinn 1. október. Það er hins vegar greinilega ekki ætlunin. Ætlunin er sú að ljúka því á þessum dögum, klára það einhverjum dögum fyrr en ella yrði gert ef málið yrði borið upp að nýju á haustþinginu.

Ég átta mig eiginlega ekki á hvað hér er á ferðinni og vildi biðja hv. þingmann um að deila með mér skoðunum í þeim efnum. Ég vek athygli á því að þegar núgildandi stjórnarráðslög frá 1969 voru samþykkt var það gert með breiðri samstöðu. Foringjar stjórnmálaflokkanna höfðu greinilega fengið sig fullsadda af því fyrirkomulagi sem hafði ríkt, þeirri lausung sem hafði verið, bentu á það í ræðum sínum og sögðu að það þyrfti að lögfesta þetta. Núna er hins vegar verið að hverfa til baka til ársins (Forseti hringir.) 1938 þegar lausungin hófst. Þess vegna undrar það mig mjög að þessi trippi skuli vera svona hart rekin einmitt þessa dagana.

(Forseti (ÁRJ): Forseti biður hv. þingmenn um að virða tímamörk í andsvaraumræðunni.)