139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[11:29]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni, ég á í raun ekkert svar við því af hverju þetta er rekið með slíku offorsi í þinginu, því að eins og ég sagði áðan eru hér önnur mál sem ætti kannski að klára. Þetta er mál sem stjórnin ætti að geta leikið sér að að klára á þrem, fjórum vikum í upphafi nýs þings. En þegar haldið er á málum þannig að deilumálin eru öll sett á síðustu dagana endar þetta að sjálfsögðu með þessum hætti.

Er asinn á málinu sá að það er vilji til að auka lausungina, eins og hv. þingmaður nefndi svo? Hverfa til hátta sem voru hér fyrir mjög svo löngu síðan? Ég vona sannarlega að svo sé ekki, því að skilaboðin sem við höfum fengið eftir hrunið og eftir þá naflaskoðun sem farið var í eru klárlega þau að við eigum einmitt ekki að fara þá leið. Við eigum að auka festuna, formfestuna. Þetta frumvarp er ekki til þess fallið að mínu viti. Ég held að verið sé að auka á lausungina sem hv. þingmaður kallaði svo.

Forgangsröðunin er að sjálfsögðu stjórnarmeirihlutans á hverjum tíma, hvaða mál hann vill ná í gegn. Það er því algjörlega á ábyrgð stjórnarmeirihlutans og að sjálfsögðu þeirra sem stjórna í þinginu hvernig málin eru sett upp og hvernig dagskrá þingsins lítur út. Ef mat stjórnarmeirihlutans er það að þetta sé veigamesta málið, að stjórnarmeirihlutinn vilji frekar ná þessu máli í gegn og það sé samþykkt en að breyta sveitarstjórnarlögum, að veita Íbúðalánasjóði tækifæri til að gefa út óverðtryggð lán, að fjalla um málefni heimilanna sem kallað hefur verið eftir, að ræða Evrópusambandið og gjaldmiðlana, þá er það bara komið í ljós að þetta er áherslumálið.