139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[11:31]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil undirstrika eitt: Það sem hér er verið að gera er að færa fyrirkomulagið aftur um rúmlega 70 ár. Menn höfðu 30 ára bitra reynslu af því fyrirkomulagi og kusu árið 1969 með breiðri pólitískri samstöðu að hverfa frá þessu. Nú er sem sagt verið að taka upp þessa eldgömlu stjórnarhætti sem menn sáu þegar þeir höfðu prófað þá að reyndust ákaflega illa. Mér sýnist hins vegar blasa við að ástæðan fyrir því að reynt er að ljúka þessu máli svona snemma hljóti að felast í því að ætlunin sé að nýta þær heimildir sem verið er að skapa hæstv. forsætisráðherra og ríkisstjórninni. Það eru heimildir sem fela í sér að brjóta upp ráðuneyti, sameina þau eða breyta þeim með öðrum hætti. Í öðru lagi er líka verið að opna á í 4. gr. eins og menn vita heimildir til að taka einstaka málaflokka undan einstökum ráðuneytum. Ekki er hægt að draga aðra ályktun af því en þá að (Forseti hringir.) það sem gerir það að verkum að menn telja liggja svona mikið á sé að það liggi á að nýta þessar heimildir.