139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[11:32]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir með hv. þingmanni, það hvarflar að manni að asinn sé svona mikill af því að það þurfi að nýta heimildina í hvelli. Þá hljótum við að spyrja okkur og kalla eftir því hvort svo sé. Ef svo er ekki að það liggi á að fá þessar heimildir hlýtur hæstv. forsætisráðherra, sem á þetta mál með húð og hári, að geta beðið fram í október þar sem málið yrði flutt og fengið það afgreitt í október/nóvember. Ég velti því fyrir mér: Hvaða mál þarf að klára áður en september rennur út? Er það svo að einhverjir málaflokkar liggi einhvers staðar illa unnir og ráðherra telji sig þurfa að færa þá eitthvert annað? Er það vegna þess að ráðherrann treystir ekki innanríkisráðherra til að klára málefni jarðarkaupa á Grímsstöðum á Fjöllum? Ég veit það ekki, það er eðlilegt að velta því fyrir sér.

Það var reyndar athyglisvert þegar hv. þingmaður talaði um að fara aftur um 70 ár, ég get ekki betur séð en að við séum með ríkisstjórn sem vill færa allt aftur um 70 ár, atvinnuveg á allan hátt.