139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[11:34]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi síðustu athugasemdina þá held ég að ríkisstjórnin sé að fara í tvær áttir á sama tíma, annars vegar til Evrópusambandsins og hins vegar, eins og hv. þingmaður sagði, aftur í tímann.

Við ræðum hér um stjórnskipulag og hvernig stjórnun á að vera hjá ríkisstjórninni. Mér hefur oft fundist eins og við séum með allt að því 10 ríkisstjórnir í landinu eða 12, vegna þess að ráðherrar taka ákvarðanir bara sisvona eins og t.d., þó að ég hafi verið hlynntur því, að leyfa hvalveiðar eða umræðan um Grímsstaði á Fjöllum eða Evrópusambandið. Einn ráðherrann fer um alla Evrópu og er að bjóða Ísland inn í Evrópusambandið á meðan aðrir ráðherrar standa í nákvæmlega sömu ríkisstjórn og segja: Við eigum ekki að fara inn í Evrópusambandið. (Gripið fram í: Það er bara einn ráðherra.) Ég held að (Gripið fram í: Hver var það?) við eigum að skoða miklu meira hvernig stjórnskipulag við viljum hafa. Frumvarpið eins og það liggur fyrir núna, jafnvel með þeirri breytingu sem hér hefur komið fram sem er til bóta, er þannig að einn aðili, forsætisráðherra á hverjum tíma, á að ráða öllu úti um allt. Það finnst mér vera afturför, mér finnst það vera stór afturför.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann hafi hugleitt að koma með fyrirkomulag sem minnir á það sem heitir á ensku „teamwork“, sem kallað er hópvinna eða teymisvinna, að ríkisstjórnin þurfi öll að samþykkja (Gripið fram í: Nei.) svona breytingar og það sé jafnvel krafist aukins meiri hluta og forsætisráðherra hafi aukið vægi innan ríkisstjórnarinnar. Að ríkisstjórnin sé þvinguð inn í „teamwork“ þannig að hún hafi eina stefnu t.d. varðandi Evrópusambandið.