139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[11:38]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Þetta hefur verið löng og mikil umræða, ég hef fylgst með henni eiginlega frá orði til orðs en þetta hefur ekki verið nefnt í umræðunni. Ég vildi gjarnan að menn færu að ræða þetta atriði því að þetta skiptir verulegu máli. Ætlum við að hafa eins manns ríkisstjórn, einræðisríkisstjórn, þar sem hann getur hótað því að taka verkefni frá einstökum ráðherrum eða bara hótað að reka þá? Ætlum við að koma með einhvers konar breytingartillögu sem Alþingi á að samþykkja og upplifa hérna kattasmölun aftur og aftur eins og var hér í sambandi við Evrópusambandsumsóknina? Það var alveg greinilegt af því að ekki var meiri hluti á Alþingi fyrir því að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Það er hægt að lesa úr ræðum einstakra ráðherra. Ég hef margoft bent á þær furðulegu ræður. Eða ætlum við að hafa þetta þannig að hér sé ríkisstjórn þar sem allir ráðherrar eru sammála um stefnuna og geti þá vikið ella? Mér finnst það miklu heiðarlegra.