139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[11:39]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er margt í frumvarpinu og þessu máli öllu og hvernig haldið er utan um það sem maður veltir vöngum yfir. Ég hef hlustað á ræður þingmanna hér líkt og hv. þm. Pétur H. Blöndal og hlustaði einnig á ræðu hans hér í gær með athygli þar sem þingmaðurinn velti fyrir sér hvort við ættum að færa löggjafarteymin eða lögskrifunarliðin úr ráðuneytunum til þingsins og efla þar með hlutverk Alþingis í að semja lögin. Ég er mjög hrifinn af því. Ég velti því fyrir mér hvort við ættum að skoða það í alvöru, þingmenn, að fara í slíkar grundvallarbreytingar á kerfinu sem við búum við þannig að við fjárlagagerð ársins 2012, ef það er hægt, byggðum við á nýju skipulagi þar sem við hefðum fært þetta hlutverk (Forseti hringir.) til þingsins sem er klárlega löggjafarvaldið.