139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[11:40]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg ljóst að þetta frumvarp, eins og hv. þm. Birgir Ármannsson benti mér réttilega á í gær, er breyting frá formfestu og yfir í sveigjanleika. Nú greinir okkur á í því og ég sé út af fyrir sig ekki ástæðu til að vera með ásökunarorð í garð þeirra sem vilja meiri sveigjanleika, nútímalegri stjórnun á Stjórnarráðinu en verið hefur. Ég sé ekki að það sé ekki óhætt að breyta skipulagi eftir 40 ár og þó að það skipulag hafi út af fyrir sig reynst okkur ágætlega sé ég fulla þörf á að breyta því núna til meiri sveigjanleika. Ég tel það ekki einræðisvald þó að forsætisráðherra skipi og segi til um hver ráðuneytin eigi að vera eða stingi upp á því. Það verður aldrei þannig. Ríkisstjórnin hlýtur að standa á bak við það.

Það sem mig langar til að taka hér sérstaklega upp er skoðun hv. þingmanns á tillögu sem hefur verið lögð fram, málamiðlunartillögu sem ég tel mjög góða og hv. þingmaður kallar hrossakaup. Hann kallaði hana það, að nú hefði hv. þm. Þór Saari verið að mæla fyrir hrossakaupum. Eru það alltaf hrossakaup þegar komið er með málamiðlun, þegar komið er með aðra tillögu? Eru það hrossakaup ef ég fellst á þá tillögu sem hér er lögð fram frá m.a. (Forseti hringir.) Eygló Harðardóttur? Er ég þá í hrossakaupum?