139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[11:44]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú er búið að ræða þetta mál í marga, marga, klukkutíma og það er því ósatt sem hv. þingmaður sagði í ræðu sinni að ekki hefði gefist tími til að ræða málið, hér hefur það verið rætt í marga klukkutíma. Tvö sjónarmið eru uppi meðal þingmanna og er þá ekki rétt að úr því verði skorið með atkvæðagreiðslu hvort sjónarmiðið verður ofan á? Er það ekki leiðin sem við þurfum að fara þegar við náum ekki saman? Og þegar þingmaður segir að sáttatillaga af þeirri sort sem hér er fullnægi engan veginn þeim skoðunum sem hann hefur á þessu máli og hvernig hann vill að málinu sé háttað, er þá ekki kominn tími til að við göngum til atkvæða um málið? Er það ekki þannig sem gert er út um mál á Alþingi á endanum, að greidd séu atkvæði?