139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[11:49]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það eru nú orðnir fastir liðir eins og venjulega að þegar umræða hefur staðið um eitthvert mál í einn eða tvo tíma þá fara fulltrúar stjórnarflokkanna upp í ræðustól og kvarta undan því að það sé málþóf. (Gripið fram í: Mjög miklar …) Ég vil byrja á að segja við þá hv. þingmenn að þeir ættu nú að tala við menn úr sínum röðum og spyrja þá hvernig þeir líti á hugtakið málþóf. Þeir ættu t.d. að byrja á hæstv. forsætisráðherra sem talaði í tíu klukkutíma um eitt mál. Það er nú þannig að við höfum rétt til þess að tala hér. Með því að beita því undanþáguákvæði um lengdan ræðutíma getum við haldið ræðu í 40 mínútur. Þeir sem eldri eru og reyndari í hópi stjórnarliða litu nú þannig á að 40 mínútna ræða væri svona upphafið að því að menn gætu boðið góðan daginn og áður en þeir gætu hafið hina efnislegu umræðu. (Gripið fram í: Eitt hjörl.) Fjögurra tíma ræða á þeim tíma var nánast ekki einu sinni talin til tíðinda. 40 mínútur — hvað yrði það, tvö eða þrjú hjörl?