139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[12:23]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sagði áðan í andsvari að auðvitað er það eðlilegast og á að vera sjálfsagður hlutur að stærri mál séu borin undir ríkisstjórnina. Það kann á einhverjum tímapunkti að vera einhvers konar mat, sem er þá yfirleitt mat hæstv. ráðherra hvenær mál eiga að koma inn í ríkisstjórnina. Mín reynsla var sú að ráðherrar reyndu frekar að koma með fleiri mál en færri til þess einmitt að vanda sig eða tryggja það að ríkisstjórnin stæði sem heild á bak við málin. Þetta eru fjölmörg dæmi, t.d. var ákvörðun um heildarafla ævinlega borin undir ríkisstjórnina (Gripið fram í.) í heild. Og það var þannig að þegar teknar voru stefnumótandi ákvarðanir varðandi þau mál stóð ríkisstjórnin á bak við það.

Varðandi hvalveiðarnar, sem fara mjög í taugarnar á hv. þm. Merði Árnasyni, sem er mjög ergilegur yfir því að hann skuli vera í minni hluta á Alþingi og minni hluta meðal þjóðarinnar varðandi afstöðu til hvalveiða, þá var það bara þannig að þetta mál var ítrekað rætt af hálfu ríkisstjórnarinnar. Hún var hins vegar ekki komin að niðurstöðu þegar ríkisstjórnin varð að hrökklast frá völdum og ég tók þá ákvörðun að halda áfram hvalveiðum sem áður var búið að taka ákvörðun um. Hér var ekki um að ræða nýja ákvörðun. Hæstv. þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, sem tók við af mér í því embætti lét fara mjög rækilega yfir það hvort þetta hefði á einhvern hátt brotið í bága við íslenska stjórnskipun, íslenska löggjöf eða þess háttar. Niðurstaða hans var sú að þetta væri fullkomlega eðlileg niðurstaða sem ég hafði komist að.

Nákvæmlega sama gerðist sumarið 2007 þegar tekin var ákvörðun um að halda áfram hrefnuveiðum. Ráðherrar Samfylkingarinnar bókuðu afstöðu sína í þeim efnum en sögðu jafnframt að þetta væri á forræði hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og þess vegna gætu þær veiðar haldið áfram.