139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[12:27]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Auðvitað er það ekki einleikið að ríkisstjórnin skuli reka þessi trippi svona hratt, reyni að leggja svona gríðarlega áherslu á að ljúka þessu tiltekna máli, sem hefur enga tímafresti í sér, á þeim fáu dögum sem við höfum í september. Vitaskuld er ekki hægt að skýra þetta öðruvísi en svo að á bak við búi löngunin til að fara að nota þær heimildir sem þetta frumvarp færir hæstv. forsætisráðherra og ríkisstjórninni ef frumvarpið verður samþykkt. Það er ómögulegt að horfa öðruvísi á þetta.

Við vitum, af því að hv. þingmaður nefndi hér sem dæmi hvalveiðarnar, að hvalveiðar eru eins og fleinn í holdi ESB. Þetta eru trúarbrögð manna til að mynda í Þýskalandi. Þar hefur verið ályktað mjög harkalega gegn okkar hvalveiðum sem þó eru lögmætar, bæði samkvæmt íslenskum lögum og alþjóðalögum. Augljóslega lítur Evrópusambandið ekki á þær sem hverjar aðrar veiðar, ekki sem hverja aðra nýtingu á sjálfbærum stofnum eins og við höfum ákveðið að gera og er auðvitað eðlilegast að gera. Hér er um að ræða einhvers konar umhverfisvernd, einhvers konar ákvörðun um að banna tiltekna nýtingu á auðlindum sem þó er ætlunin að gera með sjálfbærum hætti.

Ljóst er að Evrópusambandið, eins og það hefur svarað t.d. bréfum sem hafa gengið á milli í rýnivinnunni, lítur þannig á að hvalveiðar eigi að vera umhverfismál og þá sér maður auðvitað samhengi hlutanna enn betur. Það sem verið er að gera hér er að opna möguleikann á að svipta málaflokki eins og hvalveiðunum út úr sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, nýtingarráðuneyti, inn á einhvern annan stað þar sem talið er líklegra að hægt sé að koma í veg fyrir að hvalveiðum verði haldið áfram. Myndin verður stöðugt skýrari, dæmin blasa við manni hvert á fætur öðru og þá er allt í einu orðið ljóst af hverju lögð er áhersla á hraða meðferð þessa máls.