139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[12:32]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S):

Hæstv. forseti. Í síðustu ræðu minni sem ég flutti síðdegis í gær fór ég yfir nokkra þætti málsins en bar jafnframt upp fáeinar spurningar til hv. formanns og talsmanns meiri hluta allsherjarnefndar varðandi efnisatriði málsins. Ég hef nokkurn skilning á því að hv. þm. Róbert Marshall skuli ekki enn hafa haft tök á að svara þeim spurningum. Erindi hans í ræðustól hafa einkum verið að munnhöggvast við aðra þingmenn en ekki fara í efnisatriðin. Látum það vera. En hann hefur enn þá haft tækifæri til að svara þeim spurningum sem ég bar fram í gær.

Ég vildi líka vekja athygli hæstv. forseta á því að í gær gat ég þess að ég hygðist bera fram nokkrar spurningar til hæstv. forsætisráðherra sem ekki var í þingsal þá og ekki heldur núna. Ég ætla ekkert að amast við því. Ég þykist vita að forsætisráðherra hafi mikilvægum skyldum að sinna við verkstjórn í ríkisstjórninni þannig að það er skiljanlegt að hún eigi ekki kost á að vera hér öllum stundum. Ég óska samt eftir því að leitað verði eftir því við hæstv. forsætisráðherra að hún komi til umræðunnar síðar, áður en umræðunni lýkur, þannig að unnt sé að spyrja hana ákveðinna spurninga varðandi málið. Frumvarpið felur ótvírætt í sér að hæstv. forsætisráðherra eru faldar ýmsar valdheimildir. Það er því mikilvægt að hæstv. forsætisráðherra svari til um hver áform hennar eru varðandi það að nýta þær valdheimildir sem til stendur að færa henni með frumvarpinu vegna þess að hún er flutningsmaður og upphafsmaður málsins. Ég held að það geti verið mikilvægt fyrir umræðuna í þinginu og geti gefið okkur gleggri mynd af því hvað það þýðir að samþykkja sumar af þeim breytingum sem hér er að finna.

Ég amast ekki við því þótt hæstv. forsætisráðherra sé ekki viðstödd umræðuna í augnablikinu en ég beini því til forseta að hann leiti eftir því við hæstv. forsætisráðherra að hún gefi kost á því að hv. þingmenn geti spurt hana út úr í þessum efnum síðar í umræðunni.

Í samtali okkar í ræðustól í gær, mínu og hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur, kom fram ósk af hennar hálfu um að ég gerði grein fyrir nokkrum atriðum sem ég hafði rétt tæpt á í ræðu minni sem lýsa má sem öðrum athugasemdum við frumvarpið en þeim sem fyrst og fremst lúta að 2. greininni. Við höfum mest talað um 2. gr., enda er þar að mínu mati um að ræða langróttækustu tillöguna, um víðtækan flutning valdheimilda frá Alþingi til forsætisráðherra. Hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir vildi fá upplýsingar um hvaða önnur ákvæði frumvarpsins ég teldi að þyrfti að skoða. Að einhverju leyti gat ég vísað til framsöguræðu minnar síðastliðið fimmtudagskvöld og nefndarálitsins sem við sendum frá okkur, ég og hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, en umræðunnar vegna finnst mér samt nauðsynlegt að hlaupa á nokkrum af þessum þáttum þannig að hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir geti tekið það niður og skráð hjá sér og jafnvel líka hv. þm. Róbert Marshall, formaður allsherjarnefndar, því að allt eru það atriði sem ég teldi mikilvægt að hv. allsherjarnefnd skoðaði betur, fari svo að málið hafi frekari framgang á þessu þingi.

Ef við tölum mannamál, ef einhver lausn fyndist varðandi 2. gr., eru fjölmargar aðrar greinar sem þyrfti að skoða. Það þyrfti ekki endilega að valda grundvallarágreiningi en þær þarf engu að síður að laga áður en gengið er frá frumvarpinu sem lögum frá Alþingi. Sum atriðin eru stór, önnur minni. Ég ætla að nota þær fáeinu mínútur sem ég hef í dag til að fara yfir það.

Mér telst svo til að það séu u.þ.b. 12 greinar frumvarpsins af 27 sem ég mundi vilja gera athugasemdir við að þessu leyti og stendur það þá sem ég hef sagt í þessu máli frá upphafi að ákveðnir hlutar þessa frumvarps eru allt í lagi, sumir til bóta, aðrir a.m.k. skaðlausir. Það eru einar 12 greinar fyrir utan 2. gr. sem ég tel að þyrfti að skoða nánar áður en málið er afgreitt.

Í fyrsta lagi vildi ég nefna 4. gr. frumvarpsins. Þar hef ég áður vikið að 2. mgr. 4. gr. þar sem er að finna þá grundvallarbreytingu að heimilt verði að skipa fleiri ráðherra en ráðuneyti, eða eins og hv. þm. Álfheiður Ingadóttir lýsti í gær verður hugsanlega hægt að hafa fleiri en einn ráðherra í hverju ráðuneyti. Hv. þm. Eygló Harðardóttir hefur einnig viðrað það í ræðustól, er mér bent á.

Ég tel að það sé mikið umhugsunarefni og ég sætti mig ekki við að svo afgerandi breyting fari í gegn án þess að hún sé rædd í þaula. Við þekkjum það að í löndunum í kringum okkur eru fordæmi fyrir þessu, en við þurfum engu að síður að skoða það. Er það æskilegt? Er það það sem við viljum? Er það það sem við teljum að þurfi að setja í forgang, að fjölga ráðherrum þannig að þeir verði fleiri en ráðuneyti? Þótt þessi leið hafi þann kost að störfin dreifast á fleiri, þ.e. erfið störf ráðherra dreifast á fleiri, fylgja ókostir eins og aukinn kostnaður, hugsanlega óskýrari valdmörk milli einstaklinga, jafnvel óskýrari ábyrgð á stjórnarathöfnum o.s.frv., sem þarf að skoða í þessu samhengi. Málið má alla vega ekki fara í gegn órætt eða óathugað.

Annað atriðið varðandi 4. gr. fjallar um úrskurðarvald forsætisráðherra komi upp vafi eða ágreiningur varðandi hvar stjórnarmálefni á heima. Það er mikilvægt málefni eins og m.a. hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson hefur vikið að í umræðum. Ég vek athygli á því að í 8. gr. núgildandi laga er sagt í sambærilegu ákvæði að forsætisráðherra skuli flokka mál milli ráðuneyta. Þegar forsætisráðherra skiptir málaflokkum milli ráðuneyta þarf að gæta þess að ráðuneyti lúti málefni sem eðli sínu samkvæmt á þar heima, sbr. 4. gr. Því er kippt út þannig að möguleikinn á því að færa málaflokk frá viðkomandi fagráðuneyti eitthvert allt annað er aukinn, eins og t.d. hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson hefur oft vikið að í umræðunni.

Ég hef áður fjallað um 6. gr., í fyrsta lagi varðandi nýmæli í breytingartillögu meiri hlutans um að ráðherrar skuli skýra frá hinu og þessu sem á daga þeirra drífur á ríkisstjórnarfundum. Þá kann að vera rétt að gera það sem breytingartillagan gengur út á, að ráðherrar upplýsi samráðherra sína með betri hætti um það sem máli skiptir. En orðalagið í ákvæðinu er allt of víðtækt þannig að hætta er á að ríkisstjórnarfundir fari í endalausar upptalningar á málaflokkum sem eiga í sjálfu sér ekki erindi til ríkisstjórnar.

Síðan vildi ég nefna varðandi 7. gr. að við þurfum óneitanlega að skoða miklu betur hugmyndina sem kom fram í breytingartillögum meiri hlutans um hljóðupptökur á ríkisstjórnarfundum. Ég efast nú reyndar um að meiri hluti sé fyrir þeirri tillögu í þinginu miðað við efasemdir sem komið hafa fram, jafnvel af hálfu manna sem eru stuðningsmenn frumvarpsins, en á það þarf að reyna. Ég tel alla vega að við getum ekki gengið frá málinu öðruvísi en ræða nánar hljóðupptökurnar og afleiðingar þeirra.

Varðandi 8. gr. þarf að skoða betur að hve miklu leyti forsætisráðherra á að geta skipt sér af málum og málarekstri einstakra ráðherra.

Varðandi 11. gr. þarf að athuga sérstaklega orðalag breytingartillögu meiri hluta allsherjarnefndar.

Varðandi 12. gr. þarf að athuga betur hvaða merkingu og gildi orðalagið „óbindandi álit ráðherra“ á að hafa, hver ætlunin er með því ákvæði o.s.frv.

Varðandi 13. gr. þarf, eins og ég nefndi í fyrri ræðu minni, að skoða betur orðalagið varðandi eftirlit ráðherra með sjálfstæðum stjórnvöldum.

Varðandi 18. gr. þarf að skoða betur hvar ráðningarvald í ráðuneytum á ótvírætt að liggja.

Varðandi 20. gr. þarf að skoða orðalag, sérstaklega í 2. mgr.

Eins þarf að skoða betur 22. gr., um aðstoðarmenn.

Síðan í 25. gr., svo ég ljúki máli mínu, þarf að velta fyrir sér hvað orðalagið um samhæfingu við starfsemi Ríkisendurskoðunar og umboðsmanns Alþingis á að þýða, því að Stjórnarráðið hefur ekkert yfir þessum sjálfstæðu stofnunum að segja.