139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[12:43]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu þar sem hann stiklaði á stóru um þær breytingar sem þarf að gera á frumvarpinu að hans mati. Mér fannst hv. þingmaður nú heldur hófsamur í máli þegar hann sagði að það væri margt gott í frumvarpinu en það þyrfti að gera á því breytingar og nefndi síðan að einungis um 12 greinum þyrfti nær að gjörbylta í frumvarpinu til þess að það mætti ganga í gegn. Annars væri frumvarpið nokkuð gott. Þannig að að mati hv. þingmanns þarf að endurskoða nær allt frumvarpið svo að það megi verða að lögum.

Ég vil taka undir margt í gagnrýni hans, sérstaklega á stóru málin sem fjallað er um í frumvarpinu og gagnrýnd hafa verið.

Mig langaði að velta því aðeins upp við hv. þingmann og fá aðeins betur fram hver sýn hans er á hljóðupptökur á ríkisstjórnarfundum. Hv. þingmaður fór kannski ekki ítarlega út í það en talaði um að skoða þyrfti nánar hvaða afleiðingar það hefði í för með sér til lengri tíma litið. Gæti hv. þingmaður farið aðeins betur ofan í hvaða afleiðingar hann telur að slíkar hljóðupptökur mundu hafa í för með sér? Sumir halda því fram að þetta sé að einhverju leyti mjög jákvætt, aðrir halda því fram að þetta sé mjög neikvætt skref. Um þetta eru mjög skiptar skoðanir og eins og kom fram í máli hv. þingmanns er jafnvel ekki viðbúið að margir þeirra sem styðja frumvarpið muni styðja þessa breytingartillögu.

Það væri því fróðlegt að heyra aðeins nánar um það hvaða afleiðingar hv. þingmaður telur að þetta muni hafa í för með sér, verði þetta að lögum.