139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[12:45]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil fyrst taka fram að frá upphafi hef ég sagt að sitthvað væri nýtilegt í þeirri vinnu sem liggur frumvarpinu til grundvallar. Ég hef alltaf talið að í frumvarpinu væru ákvæði sem ýmist væru til bóta eða a.m.k. skaðlaus þó þau væru kannski ekki brýn. Eins og hv. þingmaður gat um voru það einar 12 greinar frumvarpsins, fyrir utan 2. gr., sem ég taldi ástæðu til að gera ýmist miklar breytingar á eða að minnsta kosti skoða betur.

Hv. þingmaður spurði sérstaklega um hljóðupptökur á ríkisstjórnarfundum. Það er auðvitað nýmæli af því tagi að ekki er hægt fyrir Alþingi að afgreiða það frá sér öðruvísi en að um það fari fram góð og ítarleg umræða, og menn reyni að átta sig á því hvaða afleiðingar breytingin hafi. Ég held að í fyrstu ræðu minni um þetta mál hafi ég velt því upp að annars vegar gætu kostir þess að hafa regluna eins og hún er orðuð í breytingartillögum meiri hlutans, þ.e. hljóðupptökur sem varðveittar eru í 30 ár, verið tvenns konar, annars vegar hefði þetta ótvírætt sagnfræðilegt gildi og hins vegar gæti þetta stuðlað að því að þær fundargerðir sem menn gerðu á fundum yrðu nákvæmari en ella.

Ókostirnir sem ég rakti hins vegar líka í máli mínu voru kannski fyrst og fremst þeir að þetta mundi breyta eðli ríkisstjórnarfunda, gera það að verkum að ráðherrar hikuðu meira við að koma með viðkvæm mál á ríkisstjórnarfundi og reyndu að ræða þau mál annars staðar. Svo í þriðja lagi mundu menn hugsanlega verða svo uppteknir af upptökunum að þeir færu að halda einhverjar ræður eins og (Forseti hringir.) þeir vildu að framtíðin liti á þá, miklu frekar en að þeir væru að koma á framfæri þeim sjónarmiðum og upplýsingum (Forseti hringir.) sem nauðsynlegar væru á þeim tímapunkti.