139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[12:47]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir. (Forseti hringir.)

(Forseti (ÁI): Þingmaðurinn er beðinn um að beina orðum sínum til forseta í samræmi við þingsköp.)

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni fyrir andsvarið. Ég tek undir margar af vangaveltum hans hvað þetta snertir og að þetta þurfi verulegrar skoðunar við.

Það er veruleg hætta á því að með þessum hljóðupptökum verði ríkisstjórnarfundir ekki með því sniði og þeir eiga að vera og jafnvel verði hætta á því að ríkisstjórnarfundir fari fram áður en hinir boðuðu ríkisstjórnarfundir hefjast. Ef boðaður væri ríkisstjórnarfundur klukkan níu mundu ráðherrarnir sammælast um að mæta klukkan átta, (Gripið fram í: Sumir.) ja, sumir og jafnvel allir, til að ráða ráðum sínum og ræða þau mál sem nauðsynlegt er að geta rætt í næði. Síðan yrði kveikt á hljóðupptökunni og hinn eiginlegi ríkisstjórnarfundur færi fram. Það er veruleg hætta á því. En nóg um þetta.

Töluvert miklar umræður hafa orðið um þetta mál og um það eru mjög skiptar skoðanir og mikil andstaða er við þessa auknu valdatilfærslu frá Alþingi til forsætisráðherra og framkvæmdarvaldsins. Hv. þingmaður bendir mjög vel á þetta og rekur í nefndaráliti sínu. Hvað telur hv. þingmaður að heppilegast væri að gera? Nú liggur fyrir að lagaumgjörð um Stjórnarráð Íslands á að vera eitthvað sem á að mótast frá grunni og heppilegast að hún mótist frá grunni þannig að full samstaða sé um það. Þetta er mál sem maður skyldi ætla að væri hægt að ná samstöðu um frá fyrstu skrefum, frá því að frumvarpið verður til og þar til það verður að lögum.

Hvað telur hv. þingmaður að væri heppilegast að gera? Er einhver von til að (Forseti hringir.) hægt verði að ráðast í það miklar breytingar á frumvarpinu að óhætt sé að það verði að lögum? (Forseti hringir.) Eða væri heppilegast að (Forseti hringir.) vísa því aftur til nefndar? (Forseti hringir.) Hvaða möguleika eigum við?