139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

lengd þingfundar.

[15:02]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Þegar stutt er eftir til þingloka, einn og hálfur dagur eða svo, er skiljanlegt að menn vilji nýta tímann. Ég spyr mig hvort hér sé verið að nýta tímann og vil beina þeirri spurningu minni og gagnrýni til allra hlutaðeigandi. Til dæmis hefur ekki verið haldinn fundur þingflokksformanna síðan á mánudag þrátt fyrir að um það hafi verið beðið. Ég hvet fólk til að koma sér saman um að vinna hér í samvinnu.

Ég ætla að sitja hjá við þessa atkvæðagreiðslu því að ég sé ekki tilganginn í því að hafa þingfund ef menn ætla ekki að nýta tímann til þess að vinna. Ef menn ætla hins vegar að taka höndum saman finnst mér sjálfsagt að nýta kvöldið til góðra verka. (Gripið fram í: Heyr, heyr!)