139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

lengd þingfundar.

[15:04]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég er komin hingað upp til að mótmæla þessari atkvæðagreiðslu. Nú er þetta afbrigði notað enn á ný á þessum septemberstubbi eins og septemberþing er kallað. Ég kalla eftir forgangsröðun hjá ríkisstjórninni og ég kalla ekki síður eftir forgangsröðun hjá forseta Alþingis. Ég benti á það hér í ræðu minni í gær að forseti Alþingis yrði að vera sjálfstæður í störfum sínum og óháður skipunum frá framkvæmdarvaldinu. Nú kemur enn einn daginn í ljós að svo er alls ekki. Forseti þingsins verður að standa með þingmönnum öllum í að hafa þingstörf á þessu septemberþingi sem og öðrum þingum þannig að þau séu Alþingi til sóma. Þetta næturbrölt undanfarna daga er stofnuninni ekki til sóma og ég segi því nei við þessari atkvæðagreiðslu. Hér sé sífellt farið fram á með nýjum beiðnum að þingmenn sitji á kvöld- og næturfundum og við vitum að mistökin eru gerð í lagasetningu þegar þingmenn allir eru orðnir dauðþreyttir.