139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

lengd þingfundar.

[15:05]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég tók eftir því að hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir sagði að hér lægi ekki fyrir neitt plan um hvernig ætti að ljúka þingstörfum. Ég vil mótmæla því. Það er rangt. Reynt var að halda nokkra fundi hér í gær, þrjá eða fjóra, með formönnum flokka til að ná samkomulagi við stjórnarandstöðuna um hvernig væri hægt að ljúka þessu þingi. Það vita allir að það eru aðallega tvö ágreiningsmál á milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Stjórnarliðar og við formenn flokkanna lögðum fyrir formenn hinna flokkanna, stjórnarandstöðuflokkanna, tillögur um það hvernig við gætum komið til móts við stjórnarandstöðuna í þessum tveimur málum. Það var vel boðið þó ég hafi ekki tíma til að greina frá því hér sem lagt var fram í báðum þessum málum. Það kom enginn vilji fram af hálfu stjórnarandstöðunnar um að semja um þessi tvö mál. Meðan svo er ekki er ekki hægt að ljúka þessu þinghaldi.