139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

lengd þingfundar.

[15:06]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég hélt að bankahrunið hefði kannski kennt okkur eitthvað, en svo virðist ekki vera. Við erum í sömu skotgröfunum núna og við höfum verið í í mörg, mörg ár á Alþingi. Þegar flokkar eru í stjórnarandstöðu á hverjum tíma hafa þeir brugðið á það ráð að fara í málþóf. Þetta á bæði við um núverandi stjórnarandstöðu og fyrrverandi stjórnarandstöðu sem núna situr sem ríkjandi stjórnvald. Því miður er málþóf alveg hræðilega leiðinlegt og varla boðlegt fyrir þjóðina að horfa upp á það þannig að við verðum að láta af þessu. Við þurfum að breyta því hvernig við tölum í pontu. Það þarf að breyta reglunum þannig að ræðutími verði fyrir fram skilgreindur eins og er gert alls staðar annars staðar á Norðurlöndum. Meðan við ætlum ekki að taka okkur á hér innan dyra verður staðan áfram eins og hún er núna. Það verður bara málþóf og svo rífumst við um það hver eigi að gefa eftir. Þetta gengur ekki upp, virðulegur forseti, og sýnir það að við verðum að breyta um takt og hætta að láta þjóðina horfa upp á málþóf hver sem á í hlut. (Gripið fram í: Heyr, heyr!)