139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

lengd þingfundar.

[15:08]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Hæstv. forsætisráðherra fór yfir fundi sína með formönnum flokkanna. Á þessum fundum hefur komið fram vilji held ég allra nema þá helst hæstv. forsætisráðherra til að flýta málum í gegnum þingið og nýta þann tíma sem eftir er. Eins og hæstv. forsætisráðherra bendir á bíða tugir mála. Það væri ekkert því til fyrirstöðu að klára einhver þessara mála og gera það mjög hratt ef menn héldu ekki þannig á málum í skipulagi þingsins að þeir vildu ekki ræða neitt nema það mál sem tekur lengstan tíma í umræðu. Það væri ekkert því til fyrirstöðu að ljúka tugum mála í dag til dæmis ef hæstv. forsætisráðherra væri ekki að nota þau mál og það að þeim sé ekki lokið til að þvinga menn til að ræða sitt helsta áhugamál sem eru breytingar á lögum um Stjórnarráð Íslands til að fela henni enn þá meiri völd.