139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

lengd þingfundar.

[15:09]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég leggst að sjálfsögðu ekki gegn því að þingfundur sé lengdur svo að það sé hægt að ræða hér mál af þeim þrótti sem menn hafa viljað leggja í umræðurnar á þessu þingi. Ég tel hins vegar og tek undir með þeim sem hafa gert athugasemdir við það fram að þessu að sá tími sem við höfum haft á þessu septemberþingi hafi ekki verið vel notaður. Hér hafa verið haldnar ræður í 26 klukkustundir og þar af hafa verið gerðar um 410 athugasemdir á þessum septemberstubbi. Megnið af þeim athugasemdum hafa verið um fundarstjórn forseta.

Frú forseti. Ég tel að tíma okkar sé ekki vel varið og mér finnst það hljóma hálfhjákátlega þegar þeir sem kveinka sér mest undan lengd þingfunda, sem eru stjórnarandstaðan, skuli á sama tíma standa hér í harðvítugu málþófi, mest um fundarstjórn forseta.

Ég leggst að sjálfsögðu ekki gegn framlengingu fundarins en bið menn að nýta tímann betur.