139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

lengd þingfundar.

[15:22]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég vil taka undir með hv. þm. Pétri H. Blöndal sem bendir á að þau mál sem einkum hefur verið ágreiningur um eru þess eðlis að eðlilegt er að menn reyni sitt ýtrasta til að ná sátt á þinginu. Skipan Stjórnarráðsins er stórmál, langtímamál, og það er löng þinghefð fyrir því að menn leggi mikið á sig til að ná sátt um slíkt mál. Hér er forsætisráðherra að gera grundvallarbreytingu með 2. gr. og við höfum gert athugasemdir við það. Gjaldeyrismálið er líka stórmál fyrir þjóðina alla sem menn eiga að horfa til þar sem verið er að biðja um framlengingu til ársins 2016. Það hlaut auðvitað að koma að því að sú sem hér situr, hæstv. forsætisráðherra, og sá sem hér situr, hæstv. fjármálaráðherra, ræðukóngur Alþingis ár eftir ár og Íslandsmeistarinn í löngum ræðum á Alþingi Íslendinga — auðvitað hlaut að koma að því að þau segðu eftir að þau væru komin í þessi sæti: (Forseti hringir.) Þingmenn, þið talið allt of lengi.