139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

fundarstjórn.

[15:27]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Nú háttar svo til að það er næstsíðasti dagur þingsins samkvæmt starfsáætlun þó að útlit sé nú reyndar fyrir að við verðum hér allmarga daga til viðbótar. Ég hef beðið í þrjá mánuði og 11 daga eftir svari við fyrirspurn sem ég lagði fram fyrir þinglok í vor og vil vekja athygli hæstv. forseta á því að í þingsköpum, í 6. tölulið 49. gr., er ákvæði um að hæstv. ráðherrar skuli að jafnaði svara skriflegum fyrirspurnum innan tíu daga. Svo bar við fyrir tveimur árum eða svo að fyrirspurn frá mér sem varðaði íhlutun orkufyrirtækja í stjórnsýslu sveitarfélaga dagaði uppi. Svar barst ekki fyrir þinglok og þykir mér það vont.

Mig langar af því tilefni til að spyrja hæstv. forseta hversu mörgum fyrirspurnum er enn ósvarað á þessu þingi? Hvernig hyggst forseti tryggja að ráðherrar fylgi þingsköpum að þessu leyti?