139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

fundarstjórn.

[15:37]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Það er ekki hægt annað en að taka til máls vegna þeirra ummæla sem féllu hjá formanni utanríkismálanefndar, hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni, að það væri óvirðing að ákveðinn þingmaður færi upp í ræðustól og bæri fram ósk sína að fundað yrði í utanríkismálanefnd vegna ESB-mála. Þau ummæli formannsins eru hrein óvirðing við þingið. Ég vil minna á að ábyrgð nefndarformanna er mikil eins og ábyrgð forseta Alþingis. Forseti Alþingis fer með stjórn þingsins og ber ábyrgð á nefndum og nefndarformönnum. Ég kalla enn eftir því að forseti Alþingis láti ekki framkvæmdarvaldið skipa sér fyrir verkum. Forseti þingsins er forseti allra þingmanna.

Hér hefur ítrekað verið farið fram á að fundað sé í utanríkismálanefnd. Þar er tillaga frá mér um hvort fara eigi í þjóðaratkvæðagreiðslu um að halda aðlögunarferlinu áfram eða ekki. Hv. þm. Árni Þór Sigurðsson (Forseti hringir.) neitar að halda fundi og hleypir málum ekki úr utanríkismálanefnd. Það er ofbeldi, frú forseti.