139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

fundarstjórn.

[15:38]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég verð að segja þeim til upplýsingar sem ekki vita að tillaga kom fram um það frá fulltrúum Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks í utanríkismálanefnd að halda opna fundi um stöðuna, einkum og sér í lagi í sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum í aðildarviðræðunum. Sú tillaga var lögð þar fram og ég greindi þá frá því að ég mundi á næstu fundum þar á eftir koma með tillögu um málsmeðferð, fyrirkomulag og tímasetningu þeirra funda. Það gerði ég tveimur eða þremur fundum síðar og lagði þar fram tillögu sem var samþykkt í utanríkismálanefnd um málsmeðferð með öllum greiddum atkvæðum, þar með talið atkvæðum sjálfstæðismanna og framsóknarmanna. Verið er að vinna nákvæmlega í samræmi við þá samþykkt — nákvæmlega í samræmi við hana. Þess vegna segi ég: Það er ómerkilegt að koma núna og segja að það sé ekkert verið að gera og kvarta yfir því að fundur sé ekki haldinn. Það er verið að vinna í samræmi við samþykkt utanríkismálanefndar sem þessir þingmenn tóku sjálfir þátt í að afgreiða. Ég vinn fyllilega eftir því sem utanríkismálanefnd hefur falið mér (Forseti hringir.) að gera. (Gripið fram í.)