139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

afskriftir banka og fjármálastofnana á skuldum heimilanna.

[15:47]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka þessa umræðu um skuldastöðuna og afgreiðslu á lánamálum heimila. Það er í rauninni dapurlegt að þurfa að horfa til baka og horfa á þá kollsteypu sem átti sér stað hér haustið 2008 í boði þáverandi stjórnvalda með tilstyrk örgjaldmiðilsins íslensku krónunnar.

Ég sem er kominn á sjötugsaldur, eins og það heitir, er að fara í gegnum það í þriðja skipti að tapa meira og minna þeim eignum sem ég átti. Það er umhugsunarefni hvernig á því hefur staðið og hvernig við ætlum að bregðast við því til langs tíma að við lendum í þessu reglulega.

Við buðum upp á að menn gætu fengið allt að 90% lán og margir bankanna buðu meira að segja upp á 100% lán og upp í 110% því að þeir lánuðu 90%, lánuðu síðan fyrir útborguninni og jafnvel fyrir breytingum á íbúðinni. Á sama tíma hafði það gerst á árunum 2004–2007 að íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hafði hækkað um allt að 50% og af því að búið var að opna lánamarkaðinn gátu menn þá fengið 90% lán af þessari verðmætaaukningu þannig að þeir skuldsettu sig enn frekar. Nú er ég að tala um ákveðna hópa en alls ekki heildina.

Síðan fáum við 20% verðbólguskot og höfuðstóllinn hækkar, greiðslur af lánum hækka líka og í þessari ótrúlegu stöðu stöndum við svo eftir hrun. Stjórnvöld völdu á sínum tíma að fara sértækar leiðir. Því var síðan breytt yfir í það að blanda saman bæði sértækum og almennum leiðum. Það má svo á hverjum tíma deila um hvernig til hafi tekist og hversu langt við erum komin, hvort við náum að endurstilla samfélagið, en einhvers staðar verðum við að setja mörk, eins og hér hefur oft komið fram, einfaldlega vegna þess að þau úrræði sem við buðum síðast upp á eins og 110%-leiðin hafa oft gagnast mest þeim sem í raunveruleikanum hafa ekki tekið á lausnunum heldur frestað greiðslum o.s.frv.

Við skulum átta okkur á því líka, bara af því að við þurfum að ræða út frá staðreyndum, að í fyrsta lagi kom það fram að 30% af þeim sem eiga húsnæði skulduðu ekkert í húsnæði sínu í desember sl., í öðru lagi voru 16% af íslensku þjóðinni í vanskilum með lán sín og áttu í erfiðleikum fyrir hrun. Ég held að þetta sé vert að hafa í huga.

Varðandi það sem hv. þingmaður spurði um, hvort nýta ætti þær afskriftir á húsnæðislánum sem bankarnir fengu við færslu á milli gömlu og nýju bankanna, er svar mitt afdráttarlaust: Já, ég ætlast til þess að bankarnir skili því til þeirra sem eiga þau lán.

Á hinn bóginn eru það nýjar upplýsingar fyrir mér ef í ljós hefur komið að hagnaður bankanna sé vegna uppfærslu á íbúðalánum. Ég bið hv. þm. Sigmund Davíð Gunnlaugsson að skýra það betur út fyrir mér ef hann hefur þær upplýsingar. Það er nýtt í málinu af því að við tölum hér um að ræða út frá staðreyndum.

Hvernig sem við beitum okkur í framhaldinu er ljóst að niðurfellingin hefur orðið umtalsverð, við getum deilt um hversu mikil. Niðurfellingin er 144 milljarðar og þó að menn geri lítið úr því vegna þess að í þeirri tölu séu ólögmætu gengistryggðu lánin skiptir auðvitað líka gríðarlega miklu máli í hreinsuninni að þau séu tekin út. Lán hafa verið færð niður samkvæmt 110%-leiðinni um nokkra tugi milljarða. Síðan hafa verið settar inn endurgreiðslur á vaxtabótum sem nema 30%. Regluverkinu, sem var því miður svo gjörsamlega fjandsamlegt þeim sem skulduðu fyrir hrun, hefur verið breytt heilmikið. Við eigum í erfiðleikum með fullt af lagfæringum eins og varðandi ábyrgðarskuldbindingar þar sem bankarnir hafa gengið býsna hart fram í því að ganga að ábyrgðarmönnum, einnig þar sem hafa verið lánsveð. Við í ríkisstjórninni höfum reynt að breyta þessu aftur í tímann, við höfum því miður verið rekin til baka með það af dómstólum með tilvísun í stjórnarskrána. Mörg ljót dæmi koma fram í þessari skuldahreinsun.

Varðandi það að fara að stuðla að skattafslætti til banka, eins og hv. þingmaður nefndi, verð ég að viðurkenna að mér hefur ekki hugnast það, mér hefur ekki dottið það í hug. Ég hefði frekar viljað skattleggja þá meira þannig að þeir kæmu betur til móts við fólk í þeim úrræðum sem enn eru óframkvæmd. Það er heilmikið eftir, þ.e. þau mál sem eru hjá umboðsmanni skuldara, þau mál sem eiga eftir að klárast varðandi 110%-leiðina og margt af því sem þar hefur verið kynnt og er í gangi. Við skulum skoða hvernig staðan verður eftir það. Þessi mál þyrftu auðvitað (Forseti hringir.) mjög langan tíma. Það verður forvitnilegt að skoða stöðuna síðar.

Ég hlakka til að fylgjast með umræðunni og fæ að koma hingað í lokin til að við getum rætt aðeins betur það sem fram kemur.