139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

afskriftir banka og fjármálastofnana á skuldum heimilanna.

[16:15]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Fyrst vegna athugasemda hæstv. forseta áðan er rétt að fram komi að ég bað upprunalega um að umræðan færi fram við hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra, en hæstv. velferðarráðherra bauðst til að hlaupa í skarðið. Ég þakka honum kærlega fyrir það.

Ég vil jafnframt þakka hæstv. ráðherra fyrir margt sem kom fram í ræðu hans. Ég er sammála honum um að staða ábyrgðarmanna er mikið vandamál sem þarf að finna lausn á.

Það sem ég hef hins vegar helst áhyggjur af vegna svara hæstv. ráðherra er að ekki er að heyra að ríkisstjórnin ætli að grípa til neinna aðgerða. Þetta snýst allt um að vonast til þess að bankarnir breyti allt í einu um stefnu. Hvað gefur til kynna að menn eigi að binda vonir við það í ljósi þess að þeir færa umtalsverðan hagnað, milljarða og tugmilljarða hagnað á bækur sínar í stað þess að nýta svigrúmið til að færa niður skuldir? Hvað gefur stjórnvöldum tilefni til að ætla að bankarnir taki upp á því hjá sjálfum sér að færa skuldir meira niður en orðið er? Þurfa stjórnvöld ekki að koma að þessu á einhvern hátt?

Ég nefndi í fyrri ræðu minni hugmyndir um hvernig stjórnvöld gætu haft áhrif á bankana, þó að þau séu ekki í jafngóðri stöðu til þess núna og þau voru fyrir tveimur árum. Ætla stjórnvöld ekki að hafa frumkvæði að því að koma frekar að skipulagningu skuldamála eða stuðla að því að skuldir verða færðar niður? Telja stjórnvöld að hlutverki sínu sé lokið í þessu efni? Og ef svo er finnst mér það vera verulegt áhyggjuefni, því að víða í heiminum eru menn farnir að gera sér grein fyrir því að ekki verði snúið við þróun efnahagsmála nema að taka á skuldamálunum og ekki hvað síst hjá heimilunum.

Nóbelsverðlaunahagfræðingar hafa fjallað ítarlega um þetta að undanförnu og meira að segja nýr forstjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, Christine Lagarde, lagði áherslu á það í ræðu nýverið. (Forseti hringir.)

Ef íslensk stjórnvöld, sem standa frammi fyrir jafnvel mestu reynslunni hvað þetta varðar og á margan hátt einum stærsta vandanum, (Forseti hringir.) ætla ekki að grípa til frekari aðgerða er það verulegt áhyggjuefni.