139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[17:02]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Miðað við hvernig þetta mál er unnið tel ég unnt að afgreiða það núna. Ég tel að hv. þingmenn, og það eru örugglega margir sem munu andmæla því sem ég segi núna, hafi skoðað þetta mál það vel að þeir séu til þess bærir að taka afstöðu til þeirra greina sem felast í frumvarpinu. Það kemur líka fram í frumvarpinu sjálfu hvernig það var unnið. Það var ekki unnið þröngt, mjög margir komu að vinnslu málsins. Meðal annars fór ég í sérstaka yfirheyrslu hjá fólki sem kom og hitti mig og var að undirbúa þetta mál. Það hefur verið talað við mjög marga og málið skoðað frekar vel, tel ég. Ég held að það vanti ekkert upp á að við getum afgreitt þetta. Við höfum margoft afgreitt mál hér sem hafa fengið miklu, miklu minni skoðun.

Það er hefðbundið þegar menn vilja ekki afgreiða mál og vilja skapa sér samningsstöðu, eins og menn hafa viðurkennt hér, að þá verði málþóf. Þá segja þeir auðvitað að það beri enga brýna nauðsyn til að samþykkja málið, nær væri að samþykkja öll hin málin o.s.frv. Hér er líka sagt: Við getum samþykkt tugi mála á mjög stuttum tíma, af hverju erum við að hjakka í þessu? Hin hefðbundna málsþófsaðferð er að nota málþóf til að skapa samningsstöðu og svo eiga formenn flokkanna, kannski með einhverja örfáa með sér, að höggva á hnútinn einhvers staðar í bakherbergjum. Þetta er foringjaræðið sem við erum alltaf að gagnrýna.

Við eigum ekki að koma þessu í þennan farveg, alla vega að reyna að koma okkur eins langt frá honum og hægt er. Stundum þurfa formenn að höggva á hnúta en þetta er bara hefðbundið á hverju vori og fyrir hver jól að lenda í þessari þröng þar sem málum er stillt upp með þessum hætti. Svo er bara vílað og dílað einhvers staðar í bakherbergjum um hvað fari fram og hvað ekki. Ég tel að við eigum að við reynum að koma okkur út úr þessu eins og hægt er.