139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[17:04]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í stuttu andsvari verð ég að reyna að koma nokkrum aðskildum hlutum að. Fyrst ætlaði ég að bregðast við því síðasta sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir vék að hér sem var spurningin um dagskrá þingsins, forgangsröðina í dagskrá þingsins. Ég velti því fyrir mér, ég ætlast ekkert endilega til þess að hún svari því, hvort það séu skynsamleg vinnubrögð þegar haldið er hálfsmánaðar septemberþing til að ljúka málum sem eru ókláruð frá vorþingi að setja í forgang mál sem allir hafa vitað allan tímann að krefðist mikillar umræðu og væri mjög umdeilt. Hefði ekki verið nær að leggja áherslu á að ljúka málum sem samkomulag væri um, sem krefðust minni umræðu? Slík mál eru fjölmörg á þessum lista. Sérstaklega þegar horft er til þess, hæstv. forseti, að engin efnisleg rök, ekkert í þessu frumvarpi sjálfu eða ytri aðstæðum gerir kröfu um að það sé klárað á þessum fáu dögum, ekki neitt. Við vitum um vanda sem er fyrir hendi varðandi gjaldeyrislögin, við vitum það. Þar er einhver dagsetning sem skiptir máli. Ekkert í þessu máli segir að það sé óhollt fyrir það eða skaði það á nokkurn hátt að bíða fram í október, klára það í nóvember. Við erum væntanlega að hugsa um lagasetningu til lengri tíma, ekki til næstu vikna, eða er svo, hv. þingmaður?