139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[17:14]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil, í ljósi orða hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur, koma því á framfæri að ég hef svo sannarlega lagt það fram við ýmsa aðila hér í þinginu er ráða hér ríkjum að rétt væri að koma málum á dagskrá sem virkilega liggur á að klára. Ég hef líka oftsinnis bent stjórnarmeirihlutanum á að það gæti nú verið hægðarleikur að létta á þingstörfunum með því að taka málið einfaldlega af dagskrá og nýta til þess þann meiri hluta sem er í þinginu í október til að klára málið fyrir nóvemberlok, svo að dæmi séu tekin. En það er þessi lenska hjá stjórnarmeirihlutanum að koma alltaf með umdeild mál á síðustu dögum þingsins og reyna að kreista þau einhvern veginn í gegnum þingið í krafti valds eða ofbeldis eitthvað slíkt.

Ég verð nú að segja, frú forseti, að ég er eiginlega búinn að fá nóg af slíku þegar vinnubrögðin eru með þeim hætti að þetta er stundað. Nær væri að hæstv. forsætisráðherra sleppti klónni af þinginu og leyfði okkur að tala um þau mál sem skipta máli.