139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[18:15]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég fékk á tilfinninguna þegar ég hlustaði á hina hófstilltu ræðu Bjarna Benediktssonar, sem var svona um daginn og veginn meðfram frumvarpinu eins og oft er, að frumvarpið og efni þess væru honum ekki eins á móti skapi og hann lét öðru hvoru í ræðunni. Ég vil þess vegna taka efnislega umræðu um þann meginþátt sem hv. þingmaður nefndi sem er að framkvæmdarvaldið sé látið um sitt, að skipuleggja Stjórnarráðið eftir því sem mönnum hentar á hverjum tíma, en að þinginu sé falið eftirlitshlutverk og sjálfstæði gagnvart þessu sama framkvæmdarvaldi. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort honum finnist stjórnskipaninni í Noregi, Svíþjóð og Danmörku þá sérlega áfátt af þessum sökum eða hvort þingin í þessum löndum beri vott um sérstakt ósjálfstæði vegna þess að þannig er það þar. (Forseti hringir.) Við erum að færa okkur í átt að því fyrirkomulagi sem ríkir í þessum þremur konungsríkjum þar sem þingin hafa hingað til ekki verið fræg fyrir bleyðuskap gagnvart framkvæmdarvaldinu.