139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[18:17]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er afar margt sem er með öðrum hætti á þjóðþingum annars staðar á Norðurlöndunum borið saman við það sem gildir hér. Ég hefði fagnað því ef komið hefði fram einhver greinargerð eða samantekt á fyrirkomulaginu annars staðar á Norðurlöndunum sem legði grunn að þeirri breytingu sem við ræðum hér. Ég horfi á málið út frá þeirri stjórnskipulegu stöðu sem er á Íslandi og ég spyr mig að því hvað kalli á þessa tilfærslu valds frá þinginu til forsætisráðherrans. Ég finn engin sérstök rök, hvorki í umræðunni né í málinu sjálfu, sem færð hafa verið fram hér, sem styðja þetta valdaframsal, þessa forsætisráðherravæðingu. Þess vegna er ekkert tilefni til að blanda fyrirkomulaginu á Norðurlöndunum inn í málið á þessu stigi.