139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[18:23]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ósammála því að það hafi ekki með skilvirkni að gera að forsætisráðherra geti skipað ráðuneyti, hvernig þau eru samansett og hversu mörg þau eru. Ég held að það hafi allt með skilvirkni og sveigjanleika að gera.

Ég lýsti því hins vegar yfir fyrr í dag að það er líkt farið með mér og hv. þm. Sif Friðleifsdóttur að ég er tilbúin að fallast á þá málamiðlun sem borin hefur verið fram. Málið hefur verið rætt í meira en 20 tíma, það var rætt ítarlega í 1. umr. í vor, það hefur verið rætt á fjölmörgum fundum allsherjarnefndar. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort honum finnist ekki tími til kominn að farið sé eftir þinglegum reglum þar sem málið er fullrætt og gengið til atkvæða um það.