139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[18:29]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Nei, ég tel að frumvarpið sé ekki til þess fallið að ráða bót á foringjaræðinu að svo miklu marki sem það er vandamál í dag. Ég vil þó halda einu atriði til haga til að gæta allrar sanngirni í þessari umræðu; að sjálfsögðu geri ég mér grein fyrir því að við erum ekki að afnema þingræðisregluna með þessu frumvarpi. Ég geri mér fulla grein fyrir því að væntanlega verður vald forsætisráðherra í þessum efnum alltaf temprað af einhvers konar meirihlutavilja þingsins.

Þó munu menn fara mjög varlega í að lýsa vantrausti á ríkisstjórnina vegna einhverra breytinga í þessum efnum. Einmitt vegna þess að forsætisráðherra styðst við meirihlutastuðning þingsins hverju sinni finnst mér svo sjálfsagt að hann komi með málið til þingsins.

Af því að vísað hefur verið í Norðurlöndin og sagt að þar hafi forsætisráðherra mjög víðtækar heimildir, hefur fyrirkomulagið einmitt verið öfugt þar, þar hafa verið minnihlutastjórnir í langan tíma og þá er ekki sjálfgefið hvernig tillögum sem þessum mundi reiða af.