139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[18:33]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta allshn. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir svarið. Það er nákvæmlega kjarni málsins, sérstaklega það sem þingmaðurinn vék að og ég hef farið yfir í þingræðum, að það er mikil hefð fyrir minnihlutastjórnum annars staðar á Norðurlöndunum. Þar verður ríkisstjórn á hverjum tíma að fara fram með mál í sátt vegna þess að allt þingið verður að styðja þær framkvæmdir og þau lagafrumvörp sem fram koma ellegar missir ríkisstjórnin stuðning sinn. Í slíku fyrirkomulagi, með minnihlutastjórn, verður þingheimur að þola þá ríkisstjórn sem situr hverju sinni.

Hér er mikil hefð fyrir meirihlutastjórnum og í enn einu málinu keyrir þessi verklausa ríkisstjórn nú áfram með mál, í þessu tilfelli stjórnarráðsmálið, í gegnum þingið í ósátt við nánast allt og alla. Það er ekki meiri hluti fyrir málinu í ríkisstjórnarflokkunum sjálfum og því þarf ríkisstjórnin að sækja þingstyrk út í sal til stjórnarandstöðunnar og einhverra flokka.

Það sem mig langar að lokum til að spyrja þingmanninn um vegna þess að hann er lögfræðimenntaður, er eftirfarandi: Hvað finnst hv. þingmanni um það vald sem verið er að færa frá þinginu (Forseti hringir.) yfir til framkvæmdarvaldsins, ekki bara í þessu máli heldur líka með reglugerðarvæðingu frumvarpanna sem þessi ríkisstjórn hefur staðið fyrir?