139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[19:02]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir málefnalega ræðu sem var um margt góð. En það er eitt í málflutningi þingmannsins og ýmissa annarra þingmanna stjórnarandstöðunnar sem ég er svolítið hugsi yfir og það er það sem haldið er fram í nefndaráliti minni hluta allsherjarnefndar um að með breytingunni sem felst í 2. gr. frumvarpsins sé verið að færa vald frá Alþingi til ríkisstjórnar.

Nú er í 15. gr. stjórnarskrárinnar gert ráð fyrir að forseti skipi ráðherra og veiti þeim lausn og ákveði tölu þeirra og skipti störfum en í 13. gr. er jafnframt tekið fram að forseti láti ráðherra framkvæma vald sitt. Ég sé því ekki betur en að það sé algjörlega skýrt bæði í stjórnarskrá og núverandi skipan að þetta vald sé hjá framkvæmdarvaldinu. Því langar mig til þess að heyra aðeins betur frá hv. þingmanni með hvaða hætti sé þá verið að taka þetta vald frá þinginu.