139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[19:03]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Takk fyrir þetta andsvar. Í máli mínu kom fram að við ræddum hér fyrir ári síðan um mikilvægi þess að auka sjálfstæði Alþingis. Og jú, hér er þingræðisreglan og hefð hefur verið fyrir því að breytingar á Stjórnarráðinu, á ráðuneytunum, hafa komið til þingsins og hafa farið þar í gegn. Að því leyti erum við að sjálfsögðu með þessu frumvarpi að breyta þessum áherslum. Það er alveg ljóst að við munum ræða um þessar áherslur. Viljum við hafa þetta hjá þinginu þannig að þingið hafi eitthvað um það að segja? Breytingartillagan sem fram hefur komið hér og hæstv. forsætisráðherra hefur tekið undir að sé í lagi gengur að því er mér skilst út á að þetta komi jafnframt inn í þingið þrátt fyrir að tillagan komi upphaflega frá forsætisráðherra. Sú spurning stendur því eftir: Erum við með þessu frumvarpi að nálgast þá áherslu sem við ræddum um hér í fyrra, að skerpa á skilunum milli framkvæmdarvaldsins og löggjafarvaldsins, og erum við á leiðinni í rétta átt?