139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[19:04]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þingmanninum svarið. Í mínum huga er einmitt með þessu frumvarpi verið að skerpa á skilum á milli þingsins og framkvæmdarvaldsins, en í ljósi þess sem þingmaðurinn upplýsti og við höfum rætt fyrr í dag, að komin er fram breytingartillaga sem gerir ráð fyrir því að skipan ráðherra komi til samþykktar þingsins við eina umræðu, þá þætti mér fróðlegt að heyra frá þingmanninum: Er hún ekki samþykk þeirri breytingartillögu? Mundi það ekki höggva á þennan hnút? Við erum auðvitað að ræða þessa breytingartillögu í samhengi við það sem til umræðu er í frumvarpinu sjálfu.