139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[19:10]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við deilum þeim áhyggjum og við deilum þeim áhyggjum að hér sé verið að leggja fram frumvarp og þar með verið í rauninni að krossa við á listanum að búið sé að mæta þeim ákveðnu atriðum sem þingmannanefndin og rannsóknarskýrsla Alþingis bendir á. Það er einfaldlega ekki þannig.

Hins vegar eru í þessu aðrar breytingar og þá eigum við hina vinnuna eftir. Hér kristallast sá vandi sem bent var á fyrir ári síðan þegar þingmannanefndin skilaði af sér, að þingið tekur ekki nægilegt frumkvæði í því að smíða löggjöfina og þetta kristallast hérna einfaldlega enn og aftur.

Þingið verður að vera sterkara og stíga betur fram og sýna að þingið ætlar að vinna úr þeim tillögum sem birtust okkur í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og sem voru svo unnar að einhverju leyti upp í skýrslu þingmannanefndarinnar. Í þessu frumvarpi erum við með það einfaldlega svart á hvítu að þetta er enn hugarfarið, því miður.