139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[19:15]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eins og fram kom í máli mínu tel ég að þetta sé spurning sem þarf að ræða í samhengi við þetta mál. Af hverju það er ekki gert er vegna þess að annaðhvort er ekki tími til að fara í þær umræður eða þá að menn eru einfaldlega ekki búnir að leggja það niður fyrir sér í stjórnarmeirihlutanum hvaða skoðun þeir hafa á því máli, eða í þriðja lagi að menn treysta sér einfaldlega ekki í þá umræðu og telja hana ekki tímabæra.

Ég tel ljóst á grundvelli þeirra umræðna sem hafa átt sér stað í þinginu undanfarið ár, þar sem fram kemur að löggjafarvaldið, þ.e. Alþingi, ætli að styrkja sína stöðu — og hvernig verður það gert? Verður ekki að gera skarpari skil á milli löggjafarvalds og framkvæmdarvalds? Þetta er spurning sem við verðum að ræða, þetta er atriði sem að mínu viti á heima í þessari umræðu. Það væri gott ef ágætir þingmenn sem sitja í hv. allsherjarnefnd gætu upplýst okkur um það hvort umræða um þetta hafi að einhverju leyti átt sér stað í nefndinni þó að það birtist okkur ekki í þeirri umræðu sem fram fer hér í salnum.