139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

fundarstjórn.

[19:52]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Frú forseti. Ég ætla að ræða um fundarstjórn forseta í því samhengi að ég hef áhyggjur af því hvernig þessi fundur og dagskrá þingsins er að þróast í september. Við ræðum nú mál sem enginn hefur getað bent á að sé svo mikilvægt að það þurfi að fá það samþykkt fyrir lok septemberþingsins. Enginn hefur bent á að það sé eitthvað í frumvarpinu sem geri það að verkum. Á meðan bíða önnur mál sem við höfum kallað eftir að geta rætt. Við fáum ekki heldur svör við þeim spurningum sem hér eru settar fram. Ég vil líka gera athugasemdir við það, frú forseti, að svo virðist sem stjórnendur þingsins og forseti þingsins sé búin að gleyma því að hún á að hafa samband við þingflokksformenn um þingstörfin. Ekki hefur verið fundað hér með þingflokksformönnum í langan tíma. Við vitum ekkert hvert framhaldið verður með þingið. Forseti hefur ekki upplýst þingflokksformenn um það. Formenn stjórnmálaflokkanna munu vera að ræða hér einstök þingmál en framhald og störf þingsins, hvernig því skal lokið, hvaða (Forseti hringir.) mál eru mikilvæg og annað slíkt höfum við ekki enn fengið (Forseti hringir.) að ræða við forseta.