139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

fundarstjórn.

[19:55]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Virðulegi forseti. Ég hygg að þeir fundir sem haldnir voru í gær á vettvangi formanna flokka hafi fyrst og fremst snúist um þau tvö ágreiningsmál sem hafa verið hér til umfjöllunar og voru til umfjöllunar í dag við atkvæðagreiðslu um lengd þingfundar. Það breytir ekki því að hér eru önnur 33 mál á dagskrá, virðulegi forseti. Það á eftir að forgangsraða á þeim lista. Það er alveg nauðsynlegt. Ég vil reyndar benda á að hv. þm. Margrét Tryggvadóttir benti einnig á það í dag undir þeirri atkvæðagreiðslu að ekki hafi verið haldnir fundir á vegum þingflokksformanna í marga daga. Það virðist ekki vera nein þörf á að ræða við þingflokksformenn um nokkurn skapaðan hlut. En það væri nú æskilegt að virðulegur forseti beitti sér fyrir því að einhver forgangsröðun yrði sett af stað og best af öllu væri auðvitað að þetta mál yrði tekið af dagskrá og slíkur forgangslisti settur fram og eftir honum farið.