139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

fundarstjórn.

[19:58]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Mér finnst vægast sagt mjög merkilegt og furðulegt að heyra hér að þingflokksformenn skuli ekki vera á reglulegum fundum eða hafi ekkert fundað til að fara yfir skipulag þingstarfanna. Þetta er alveg með ólíkindum, frú forseti. Þingstarfið er nánast í uppnámi. Mörg stór mál bíða vegna þess að ekkert annað mál kemst að. Nú hefur verið upplýst af tveimur hv. þingmönnum, formönnum tveggja þingflokka, að það hafi nær ekkert verið fundað með þingflokksformönnum. Ég hvet hv. forseta til þess að funda sem fyrst með þingflokksformönnum og kanna hvort einhver vilji sé til lausnar og breyttrar forgangsröðunar í þinginu. Þetta staðfestir kannski, frú forseti, það sem kom fram í umræðunni fyrr í dag um að ekki sé nokkur vilji til þess að haga málum með öðrum hætti, samanber fundi hæstv. forsætisráðherra með formönnum flokkanna í gær. (Forseti hringir.) Ég hvet þá til þess að taka hér við.