139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

fundarstjórn.

[20:04]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég verð að tjá hv. forseta áhyggjur mínar af störfum þingsins. Hér erum við með dagskrá með 35 málum og við erum komin í 2. málið. Samt vantar það mál sem er hvað brýnast sem eru gjaldeyrislögin, frumvarp til gjaldeyrislaga. Þau lög renna út um næstu mánaðamót. Ég held því að menn þurfi að fara að taka á honum stóra sínum og ræða mál sem skipta einhverju máli og liggur á að afgreiða, hvort sem það er gert svona eða hinsegin. Varðandi gjaldeyrishöftin vil ég að gerð verði einföld breyting og þeim frestað til áramóta og að menn vinni almennilega á þeim tíma að því að aflétta höftunum. Ég hef dálitlar áhyggjur af þessu, frú forseti, vegna þess að samkvæmt dagskrá þingsins og skipulagi er síðasti dagur þingsins á morgun.