139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

fundarstjórn.

[20:20]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Verði haldið áfram með málið endar það í atkvæðagreiðslu þegar það hefur verið fullrætt, t.d. þegar hv. formaður allsherjarnefndar hefur svarað ýmsum þeim sjónarmiðum sem fram hafa komið í umræðunum undanfarna daga og aðrir þingmenn hafa brugðist við þeim svörum með eðlilegum hætti. Hv. þm. Róbert Marshall segir að eðlilegt sé að reyna að ná samkomulagi um það viðfangsefni sem við stöndum öll frammi fyrir, þ.e. hvernig haga eigi þinghaldinu næstu daga. Ég taldi mig koma með frekar jákvætt og uppbyggilegt innlegg áðan um að farið yrði í ákveðna forgangsröðun þar sem horft yrði til þess hvaða mál væru raunverulega brýn, hvaða mál þyrfti að leysa á næstu dögum og vikum eða þangað til þing kæmi aftur saman 1. október. Hvaða mál eru það? Við vitum að það eru nokkur. Eigum við ekki (Forseti hringir.) að setja þau í forgang?