139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[20:22]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Er málþóf í gangi? Miklar umræður spunnust um það hér fyrr í dag hvort málþóf væri í gangi um þetta mál og hver skilgreiningin væri á málþófi og annað í þeim dúr. Áður en ég fjalla efnislega um málið má ég til — sérstaklega í ljósi þess að sá sem mælti fyrir þessu máli upphaflega á þingi er hæstv. forsætisráðherra og ef einhver er drottning í einhverju hefur hún verið málþófsdrottningin — að vitna til fréttaskýringar frá því að hæstv. forsætisráðherra var óbreyttur þingmaður. Mig langar að lesa úr fréttaskýringu sem birtist í Morgunblaðinu þriðjudaginn 19. maí 1998. Þar er verið að fjalla um umræður á þingi þegar hæstv. forsætisráðherra, sem þá var þingmaður, hafði haldið ræðu í tíu til tólf klukkustundir. Tilvitnun í þessa grein byrjar, með leyfi forseta:

„Til snarprar orðasennu kom á þingfundi Alþingis síðdegis á laugardag eftir að Jóhanna Sigurðardóttir, þingflokki jafnaðarmanna, gerði að umtalsefni ummæli Davíðs Oddssonar forsætisráðherra í fjölmiðlum fyrr um daginn. Þar hafði hann m.a. sagt að umræðurnar á Alþingi undanfarnar vikur væru þinginu til skammar og því næst hefði hann boðað breytingar á þingsköpum Alþingis í vor eða haust í þeim tilgangi að takmarka ræðutíma þingmanna.“

Frú forseti. Það hefur vissulega komið upp í umræðunni í dag að það þurfi enn frekar að takmarka ræðutíma þingmanna en orðið er. Ég ætla að halda áfram með þessa tilvitnun:

„Jóhanna sagði m.a. í upphafi umræðunnar um þetta mál að forsætisráðherra gerði það sem í hans valdi stæði til að stilla því upp sem málþófi þegar stjórnarandstæðingar ræddu ítarlega um sveitarstjórnarfrumvarpið, frumvarpið um eignarhald og nýtingu á auðlindum í jörðu og húsnæðisfrumvarpið. Hún vísaði því á bug að um málþóf væri að ræða og sagði að stjórnarandstaðan hefði lýðræðislegan rétt á því að koma athugasemdum sínum á framfæri.

Forsætisráðherra kvaðst þess hins vegar fullviss að þjóðinni léki mikil forvitni á því að vita hvenær Jóhanna hæfi málþóf ef yfir tíu tíma ræða væri það ekki.“

Frú forseti. Sá sem hér stendur hefur haldið eina 40 mínútna ræðu og er nú í annarri ræðu sem tekur 20 mínútur. Þetta er stórt og viðamikið mál. Í ljósi þess hve lengi forsætisráðherra talaði á sínum tíma á sá sem hér stendur enn þá eftir rúmlega níu klukkutíma.

Mig langar að halda aðeins áfram að lesa upp úr þessari grein, með leyfi forseta:

„Síðar í umræðunni fjallaði ráðherra um þann tíma sem það hefði tekið alþingismenn að ræða um fyrrnefnd þrjú frumvörp auk þjóðlendufrumvarpsins og sagði að þær umræður hefðu tekið samtals um 120 klukkustundir. Þrátt fyrir það horfði Jóhanna framan í þjóðina og segði að hún hefði ekki verið í málþófi.

Jóhanna svaraði þessu með því að gagnrýna ráðherra fyrir það að telja mínúturnar og klukkutímana sem það tæki þingmenn að ræða mikilvæg mál.“ — Hver kannast ekki við það hér úr umræðunni að taldar séu mínúturnar og klukkutímarnir? — „Á sama tíma hefði hann ekkert að segja við það fólk sem hundruðum saman yrði án öryggis í húsnæðismálum þegar frumvarp félagsmálaráðherra um húsnæðismál næði fram að ganga. Sagði hún það til skammar að forsætisráðherra hefði engin skilaboð til þjóðarinnar önnur en þau hvað það tæki stjórnarandstöðuna langan tíma að ræða um þau mál sem henni lægju á hjarta.“

(Gripið fram í: Ertu að mæla málþófinu bót?) Alls ekki. Nú spyr maður sig, frú forseti, og sérstaklega í lok niðurlags þessarar fréttaskýringar hvort hæstv. forsætisráðherra sé búin að gleyma því sem hún sagði þarna og stjórnarþingmenn úr hennar flokki. Þarna fjallaði hæstv. forsætisráðherra einmitt um fólkið í landinu, fólkið sem væri að tapa húsnæðinu. Það er einmitt það sem brennur á fólki í dag. Fólk er að reyna að ná endum saman. Það er þess vegna, frú forseti, sem umræða hefur verið um að breyta dagskrá þingsins. Ég held að það væri mjög jákvætt ef það væri mögulegt.

Áður en við höldum lengra vil ég segja að þetta er ekki í fyrsta sinn sem við ræðum breytingar á Stjórnarráðinu á þessu kjörtímabili. Það virðist vera sem stjórnarráðsbreytingar séu eitt helsta gælumál Jóhönnu Sigurðardóttur. Fátt annað virðist komast að. Þetta virðist öll mál eiga að leysa.

Mig langar að lesa upp úr minnihlutaáliti hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur þar sem hún rekur mjög vel hversu mikill hringlandaháttur hefur verið á þessum málum það sem af er kjörtímabilinu, með leyfi forseta:

„Nokkur hundruð sjálfstæðar lagabreytingar hafa verið gerðar á kjörtímabilinu, með tilheyrandi kostnaði, á lögum til að innleiða ný nöfn ráðuneyta og þess eru mörg dæmi að sömu stjórnarmálefni hafi á innan við þremur árum heyrt undir ráðuneyti með þremur mismunandi ráðuneytisheitum. Þannig tilheyrðu löggæslumál fyrst dómsmálaráðuneyti, síðan dómsmála- og mannréttindaráðuneyti og frá síðustu áramótum innanríkisráðuneyti og í frumvarpi því sem lagt er fram samhliða þessu frumvarpi er lagt til að afnema nafn innanríkisráðuneytisins sem og annarra ráðuneyta.“

Þetta er því fjórða breytingin á þessum málaflokki það sem af er kjörtímabilinu, frú forseti. Er nema von þegar þingmenn og allir aðrir hafa fylgst með þeim hringlandahætti sem er búinn að vera á þessum málum, frú forseti, að menn hafi efasemdir um það hvort óhætt sé að veita forsætisráðherra og hæstv. ríkisstjórn það vald sem Alþingi hefur þegar haft. Menn eru sammála um að það er ekki jákvætt að vera með þennan gríðarlega hringlandahátt á þessum málaflokki.

Til að varpa ljósi á óákveðni ríkisstjórnarinnar í þessu efni má til gamans geta að á síðasta þingi voru gerðar 193 lagabreytingar til að innleiða orðið innanríkisráðuneyti og innanríkisráðherra. Nú nokkrum mánuðum síðar á að gera 193 lagabreytingar til að afnema þær lagabreytingar sem voru framkvæmda fyrir ekki svo löngu síðan. (Gripið fram í: Atvinnusköpun.) Atvinnusköpun fyrir þingmenn og embættismenn en, frú forseti, það hefur ekkert að gera með aukna verðmætasköpun í landinu.

Það hefur verið mikill ágreiningur um þessi mál og maður hefði ekki talið ósennilegt, hefði verið leitað þverpólitískt eftir því strax að afloknum kosningum með svipuðum hætti og gert var í þingmannanefndinni varðandi skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og annað, að menn hefðu getað tekið markvissa umræðu um það hvert bæri að stefna í þessum málum hvað Stjórnarráðið snertir. Menn eru þegar öllu er á botninn hvolft allir sammála um, eða því vil ég í það minnsta trúa, hvað þessi mál snertir að það eigi að vera hægt að vinna þau í mikilli sátt og á breiðari grunni en gert hefur verið.

Frú forseti. Stundum hefur verið talað um að Bjarni Benediktsson eldri hafi verið mjög ákveðinn og ráðríkur maður, en hann gerði sér grein fyrir því á sínum tíma hversu mikilvægt væri að ná víðtækri sátt um þennan málaflokk. Í greinargerð með þingsályktunartillögu sem lögð var fram fyrir um 50 árum síðan er þetta skýrt mjög vel út. Verið var að fjalla um hvernig ætti að koma skipulagi og endurskipulagningu á Stjórnarráðið. Þá var fjallað um hversu mikilvægt það væri að ná víðtækri sátt og að ólíkir stjórnmálaflokkar kæmu að vinnu sem þessari. Það er grunnurinn að öllu starfinu. Þeir sem ráða í dag geta verið komnir í stjórnarandstöðu á morgun. Jafnvel þótt langt sé síðan þetta var þá hefur því verið haldið fram reglubundið síðan hversu mikilvægt er að ná víðtækri sátt um það hvernig við vinnum öll málefni sem tengjast Stjórnarráðinu. Í staðinn fyrir að vinna þetta með þeim hætti er komið fram með tillögur, sem fyrir fram eru í ágreiningi í ríkisstjórn þar sem tveir hæstv. ráðherrar eru hugsanlega andvígir þeim breytingum, til þingflokkanna og þingsins. Svo virðist vera, frú forseti, í málum þar sem auðséð er að eigi að vinna í samvinnu að ríkisstjórnin velji ekki friðinn ef mikill ófriður er í boði. (Gripið fram í: Rétt.) Það er mjög alvarlegt í málum eins og þessu. Það er einmitt þess vegna sem við stöndum í þessum sporum nú og gerðum líka síðast þegar þessi mál voru rædd. Þetta virðist vera hjartans mál hæstv. forsætisráðherra og hún heldur því svo þétt að sér að menn fá ekki að koma að þeirri vinnu, ekki á frumstigum. Hver ætlar að mæla í mót því að skipulag Stjórnarráðsins eigi að vinna á víðari grunni og fleiri eigi að koma því?

Það hafa verið nokkrar umræður, frú forseti, um þetta mál. Ég vil koma aðeins inn á breytingartillögu sem hefur verið lögð fram í þinginu af því að ég hygg að ákveðnir stjórnarliðar muni spyrja út í hana í andsvörum á eftir. Lögð hefur verið fram breytingartillaga til að koma að einhverju leyti til móts við þetta, að því er sagt er, en sú breytingartillaga er á margan hátt mjög gölluð og tekur ekki á stóra vandanum í málinu. Í fyrsta lagi er óvíst hvort hún taki á vandanum. Síðan er það tillagan sjálf, það er mjög óeðlilegt að hún komi fram með þessum hætti, að henni sé hent inn í þingið án þess að hún sé send út til umsagnar án þess að búið sé að ræða hana neitt í nefnd sem einhvers konar heildarlausn á þessum vanda. Ef við skoðum tillöguna sjálfa þá er staðreynd málsins sú að hún felur í sér að það getur komið fram þingsályktunartillaga sem kveður á um ráðuneytaskipanina og málefnaflokkana, þó það sé nokkuð óljóst orðað, og sú tillaga fengi einungis eina umræðu hér í þinginu. Í dag eru þrjár umræður: Málið kemur fram sem lagafrumvarp, það fer í 1. umr., síðan fer málið út til umsagnar, því næst í 2. umr. og 3. umr. Með þessum hætti er ekkert umsagnarferli um þessar breytingar, frú forseti, umsagnaraðilar hafa ekkert um það að segja hvernig ráðuneytaskipan verður háttað.

Frú forseti. Reynslan á þessu kjörtímabili hefur sýnt okkur að þörf hefur verið á því að veita umsögn um þessi mál. Það er mikilvægt fyrir þennan málaflokk, Stjórnarráð Íslands, að það sé mögulegt að veita umsögn um það hvernig Stjórnarráðið sé skipulagt. Við þurfum ekki einu sinni að fara aftur fyrir síðustu kosningar til að rifja upp þegar þingið gerði breytingar á frumvarpi forsætisráðherra um Stjórnarráðið og felldi úr frumvarpinu það sem hæstv. forsætisráðherra hafði lagt til, þ.e. að stofna svokallað atvinnuvegaráðuneyti. Af hverju var það gert? Meðal annars vegna þess að það barst fjöldi umsagna um málið. Fjöldi hagsmunaaðila og fleiri, jafnvel flokksráð annars stjórnarflokksins, lögðust gegn þessum breytingum. Með leyfi forseta, langar mig að lesa upp þá sem lögðust gegn þessu frumvarpi — ég veit ekki hvort þetta er tæmandi listi:

Samtök ungra bænda lögðust gegn sameiningu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis og iðnaðarráðuneytis í atvinnuvegaráðuneyti, aðalfundur Landssambands kúabænda, aðalfundur Landssambands sauðfjárbænda, búnaðarþing 2010, Búnaðarsamband Austurlands, Félag ungra bænda á Austurlandi, Félag ungra bænda á Norðurlandi, stjórn Landssambands smábátaeigenda, flokksráðsfundur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, annars stjórnarflokksins, sveitarstjórn Skagastrandar, sveitarstjórn Skagafjarðar, Búnaðarsamband Skagfirðinga, Vesturlands, Vestfjarða, Kjalarness, Húnaþings og Stranda, stjórn Bændasamtaka Íslands, Farmanna- og fiskimannasamband Íslands, Landssamband íslenskra útvegsmanna, Landssamband stangveiðifélaga, Landssamband veiðifélaga, Samtök atvinnulífsins, Samtök fiskvinnslustöðva, Sjómannasamband Íslands, VM – Félag vélstjóra og málmtæknimanna.

Þetta eru aðilar sem veittu umsögn um stjórnarráðsbreytingar. En ekki er gert ráð fyrir að hægt sé að veita umsögn um þingsályktunartillöguna í breytingartillögu 1905, sem virðist vera vanhugsuð á mjög margan hátt.

Við skulum gefa okkur það að hæstv. forsætisráðherra sé enn á þeirri skoðun að það þurfi að búa til atvinnuvegaráðuneyti, þá getur hún gert það með frumvarpinu eins og það er óbreytt án þess að ræða við þingið og án þess að ræða við nokkurn þeirra aðila sem höfðu þetta um málið að segja á sínum tíma. Með þessari breytingartillögu getur hún vissulega gert það, hún getur borið það undir þingið í einni umræðu án þess að haft sé samráð við nokkurn utan veggja Alþingis. Er það stefnan, frú forseti? Ég vil í það minnsta ekki stefna þangað. Það kann að vera að hæstv. forsætisráðherra vilji stefna þangað í þessu máli, en ég er ekki tilbúinn að stefna í þá átt að hægt sé að ráðast í breytingar sem auðsjáanlega hafa á þessu kjörtímabili notið mikillar andstöðu hjá öðrum stjórnarflokknum meðal annarra, án þess að nokkur utan veggja Alþingis geti veitt umsögn um málið.

Maður hlýtur að spyrja sig, frú forseti, hvort þetta hafi verið ætlunin og hvort sé með einhverjum hætti hægt að laga þessa breytingartillögu. Það er hægt að laga þessa breytingartillögu með því að láta það gilda að Alþingi þurfi með lagafrumvörpum að fjalla um þessi mál eins og verið hefur. Ég skil ekki af hverju hæstv. forsætisráðherra og núverandi stjórnarmeirihluti sækir það svo fast að fá þessu breytt. Af hverju er svona hættulegt að spyrja Alþingi og fólk utan veggja Alþingis hvernig skipan Stjórnarráðsins á að vera háttað?

Þá kem ég að því af hverju ég vitnaði í frétt frá árinu 1998 áðan þar sem hæstv. forsætisráðherra virðist hafa talið, ef maður les þessa grein, framkvæmdarvaldið hafa beitt sig miklum órétti. En hvað gerist svo? Þegar hæstv. forsætisráðherra er komin í ríkisstjórn, sú sem stóð hér fyrir tíu til tólf árum og gagnrýndi þetta gríðarlega, þegar hún er kominn hinum megin við borðið gerir hún nákvæmlega það sama og hugsar með sama hætti og þeir sem hún gagnrýndi öll þessi ár. Ég held að það sé okkar stærsti vandi við að breyta störfum og venjum á Alþingi að þau sem eru í forustu í ríkisstjórn, hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra, hafa verið í áratugi á Alþingi og hafa upplifað nákvæmlega það sama og þau eru að gera núna.

Frú forseti. (Forseti hringir.) Til þess að ná þessu máli (Forseti hringir.) í einhvern annan farveg verðum við einfaldlega að byrja (Forseti hringir.) alveg frá grunni, vinna það á víðari grundvelli og allir (Forseti hringir.) þingflokkar verða að koma að því frá fyrsta degi.