139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[20:46]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég var ekki að vitna í Jóhönnu Sigurðardóttur, hæstv. forsætisráðherra, fyrir að segja að hér færi fram málþóf. Ég var að vitna til þess sem hæstv. forsætisráðherra sagði á sínum tíma, að menn hefðu lýðræðislegan rétt til að ræða málin og fara yfir málin. Ég gerði það mjög vel í ræðu minni áðan og náði reyndar ekki að klára allt sem ég ætlaði að fara yfir.

Ég hjó reyndar eftir því þegar hv. þingmaður sagði áðan „þegar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið verður sameinað iðnaðarráðuneytinu og til verður atvinnuvegaráðuneyti“. Þetta er akkúrat andinn sem er í gangi. Í dag er ekki búið að sameina þessi ráðuneyti vegna þess að Alþingi Íslendinga tók þetta út úr frumvarpinu á sínum tíma en hæstv. forsætisráðherra og hv. þingflokkur Samfylkingarinnar sættir sig ekki við þá niðurstöðu og þess vegna kemur þetta frumvarp fram. Það er einmitt vegna þess að hugsunarhátturinn er sá: þegar þetta verður sameinað. Því miður er ekki vilji til þess í dag á Alþingi Íslendinga (Forseti hringir.) og þess vegna þarf hæstv. forsætisráðherra að fá þetta vald. Þetta skýrir mjög vel (Forseti hringir.) af hverju hv. þingmaður styður málið svo mjög.