139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[21:11]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef upplifað ýmislegt í tíð hæstv. ríkisstjórnar, eins og t.d. samþykkt umsóknarferlisins um Evrópusambandið. Það var ótrúleg samþykkt. Þær ræður sem hæstv. ráðherrar héldu, ráðherra Vinstri grænna sérstaklega, eru ótrúlegar aflestrar. Það var samt samþykkt. Þá komst á hið fræga hugtak „kattasmölun“. Sama er með samþykkt á Icesave-samningunum í tvígang. Í tvígang fékk ríkisstjórnin samþykktar hugmyndir sínar um lausn á Icesave sem þjóðin kastaði fyrir róða sem betur fer, en hefðu kostað óhemjufé í öllum niðurskurðinum, í öllum skattahækkununum. Og þá hefði staða ríkissjóðs verið miklu, miklu verri í dag ef vilji stjórnarflokkanna hefði gengið í gegn, en það var líka samþykkt í tvígang.